Það skyldi engan undra að Afríkubúum þyki stundum sem Guð hafi gleymt Afríku, og heimsmeistarakeppnin er engin undantekning. Úrúgvæinn Luis Suarez kom í veg fyrir að afrískt lið kæmist í fjögurra liða úrslit heimsmeistarakeppninnar með því að verja viljandi með höndum. Suarez hefur síðan sagt að þetta hafi verið hin raunverulega hönd Guðs. Hann er nú þjóðhetja í Úrúgvæ og víða er fórnfýsi hans lofuð.
Tuttugu árum eftir að þetta hugtök "hönd Guðs" varð til í knattspyrnu minnast Englendingar þessa atburðar með reglulegu millibili og á Bretlandseyjum nýtur Maradona aldrei sannmælis sem einn besti knattspyrnumaður allra tíma vegna þessa.
Fyrir örfáum mánuðum var þess krafist að Thierry Henry yrði dæmdur í keppnisbann og franska liðinu vikið af HM þegar Frakkinn handlék boltann áður en hann sendi hann á Gallas sem skoraði. Þetta var í undankeppni, gerðist í aðdraganda marks og talsvert eftir í leik sem snérist um þátttökurétt á HM, en hin nýja hönd Guðs réði úrslitum á síðustu sekúndu í átta liða úrslitum lokakeppni.
Í dag voru þeir Gary Lineker, Alan Shearer og Alan Hansen sammála um að allir hefðu gert það sama í stöðu Suarez. Er nema furða að Afríkubúum þyki sem eitt gildi um Englendinga og Íra og Bretlandseyjar en annað um Ghana og Afríku?
Spyr sá sem ekki veit.
VIð skulum hins vegar vona að heimsmeistarakeppnin verði til þess að draga úr mismunun og kynþáttafordómum. Engum leynist lengur að Afríkubúar fara létt með að halda stærsta íþróttamót heimsins (og það með bros á vör!!)- og það eitt út af fyrir sig verður vonandi lóð á vogarskálarnar.
Það var sérstaklega viðeigandi þegar fyrirliðar Argentínumanna og Þjóðverja lásu eiðstaf fyrir hönd keppenda á HM um að berjast gegn kynþáttahatri og mismunun, fyrir leik þeirra í dag. Navi Pillay, Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna sem sjálf er Suður-Afríkubúi, orðaði þetta eftirminnilega: "Við skulum sparka mismunun útaf vellinum. Tæklum útilokun. Veiðum kynþáttahatrið í rangstöðugildruna."
Stóra verkefnið er svo að efla Afríku og hjálpa Afríkubúum á leið til betri lífsgæða og þróunar. Franski ráðherrann, Rama Yade, sem sjálf er fædd í Senegal, hitti naglann á höfuðið þegar hún benti á það himinn og haf sem er á milli íþróttamanna á borð við franska landsliðsins sem búa á hótelum sem kosta 600 dolara á nóttina á meðan stór hluti Afríkubúa lifir á einum dollara á dag eða minna.
Ríki heims strengdu þess heit árþúsundaárið 2000 að uppræta sárustu fátæktina í heiminum og nú í haust hittast leiðtogar heims til að fara yfir stöðuna enda aðeins fimm ár þar til markmiðinu á að vera náð.
Þótt gæðum sé vissulega misskipt í Suður-Afríku, sýnir árangur landsmanna við að halda heimsmeistarakeppnina að Afríka er svo mikliu meira en sú eymd og vonleysi sem við heyrum um í fréttum. Veraldarleiðtogarnir voru búnir að lofa því að rífa fátækasta fólk heims upp úr örbirgð og hungri og reynsla Suður-Afríku sýnir að það er hægt.
Ætlum við að leyfa leiðtogunum að verja með höndum á línu og svindla eins og Suarez eða ætlum við að efla Afríku og krefjast efnda á loforðunum á leiðtogafundinum?
laugardagur, 3. júlí 2010
Á svindl að útiloka Afríku?
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)