sunnudagur, 6. september 2009

Hótel Kalifornía

Sá Eyverji sem hér heldur á penna þóttist hafa forframast allnokkuð á dögunum þegar ég var í sendinefnd embættismanna Sameinuðu þjóðanna sem sótti Norðmenn heim. Ekki laust við að mér þætti hagur Strympu hafa vænkast allnokkuð þegar við gengum á fund Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs.

Auðvitað var ég ekki viðstaddur fund framkvæmdastjórans og forsætisráðherrans enda bara lítið tannhjól í stórri vél og þurfti að drepa tímann fram að blaðamannafundi með því að skoða ljósmyndir og málverk, þar til ég var ávarpaður og spurður hvort ég væri blaðamaður. Kvað ég já við – og var umsvifalaust vísað á dyr fyrir að vera að þvælast þar sem blaðamenn áttu ekkert erindi!

Einu sinni blaðamaður alltaf blaðamaður. Við þekkjumst greinilega úr og ég er sannfærður um að það hafi ekki verið bara vegna þess að jakkafötin mín voru eins og ég hefði sofið í þeim!

Fyrrverandi yfirmaður minn í fréttamennsku, sótti á tímabili á önnur mið og sagði mér að innst inni væri blaðamennska eins og sjúkdómur eða eiturlyf: í raun og veru litum við niður á flest önnur störf. Ég sagði félaga mínum hér í Brussel þessa sögu og hann botnaði hana með þvi að segja að já auðvitað væru blaðamenn svo stoltir af sannleiksleit sinni.

Kannski einhverjir, en ég held að það sé ekki málið. Þetta er starf sem skilar mjög konkret árangri: fréttin sem er birt að loknum vinnudegi er áþreifanleg og er svo vegin og metin. En kannski er þetta einfaldlega adrenalín kikk eins og að þeysast um á mótorfák svo vitnað sé í höfuðskáldin í HLH flokknum.

Og sjúklingurinn eða fíkillinn er eins og alkóhólistinn, blaðamaður að eilífu alveg sama hvað hann gerir. Ég þekki “fyrrverandi” blaðamenn frá mörgum löndum, td. Íran og Sierra Leone og það er eins og við manninn mælt að í samtölum berst talið að “okkur” og “hinum”; hvernig við hugsum og hvernig HINIR hugsa. Og hvernig ÞEIR skilja okkur ekki.

Tilbrigði við stefið "Þetta eru asnar, Guðjón."

Eagles voru svo sannarlega ekki að syngja um blaðamennsku í laginu Hotel California en niðurstaðan er sú sama.

“You can check out anytime you like, but you can never leave.”

PS Takk Jón Óskar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mega blaðamenn ekki skoða ljósmyndir og málverk í Noregi?

Nafnlaus sagði...

Enjoy og hade!
http://www.youtube.com/watch?v=ufc7Z76ko1Q
Hilsen
Blixa