Fyrir nokkrum árum ákvað landsþekktur sjónvarpsmaður að hverfa af (blá)skjá allra landsmanna og hasla sér völl á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur. Varð þá öðrum sívinsælum sjónvarpsmanni að orði: “Ætlarðu virkilega að fara að raða ruslafötum?”
Þessi saga sýnir betur en margt annað að meira að segja fyrir daga REI hneykslisins var það orðstír borgarstjórnar Reykjavíkur að þar færi í besta falli uppeldisstöð fyrir verðandi landsmálapólitíkusa en í versta falli sjálftökusjóður stuttbuxnastráka- og stelpna. Og stundum fór þetta tvennt saman eins og dæmin sanna.
Nú ganga Reykvíkingar brátt að kjörborðinu. Íslendingar eru alræmdir fyrir pólitískt minnisleysi enda hvar annars staðar væri hrunhöfundurinn Davíð Oddsson orðinn ritstjóri helsta pólitíska blaðs þjóðarinnar og REI stjarnan Hanna Birna borgarstjóri?
En horfumst í augu við staðreyndir. Þrátt fyrir pólitíska ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á þessum hneykslismálum hefur Hanna Birna unnið sér traust kjósenda enda þrátt fyrir allt frambærilegur kandídat til að stjórna uppröðun ruslafatna um gjörvalla Reykjavíkurborg og þótt víðar væri leitað. Það er ekkert skárra í boði af hálfu þeirra bláu enda Hanna Birna afbragðsmanneskja – með ömurlegar skoðanir.
En snýst borgarpólitíkin bara um að raða ruslafötum og dreifa stöðumælasektum?
Svar mitt er nei og svar Hjálmars Sveinssonar, frambjóðanda í prófkjöri Samfylkingarinnar sem senn fer í hönd er hið sama. Það eru mörg herbergi í húsi Hjálmars og þaðan er útsýni til til margra átta. Hann hefur kynnt sér af hugkvæmni og nákvæmni borgar- og skipulagsmál víða erlendis með þeirri skarpskyggni sem vænta má af þýsklærðum heimspekingi.
Hjálmar er nýjabrumið hjá Samfylkingunni en flokkurinn nýtur þess að hafa margt ágætra karla og kvenna í framboði og toppa vinsældalistann hjá mér auk Hjálmars, þau Dagur B. Eggertsson og Oddný Sturludóttir sem ég spái báðum miklum frama í landsmálum.
Því er ekki að leyna að ég hef þekkt Hjálmar um árabil og rifist við hann um pólítik frá því á síðari hluta síðustu aldar. Hjálmar telur mig vafalaust helst til bláan krata og stundum hefur mér fundist bleiki liturinn í pólitík hans fölari en sá rauði.
En eftir nærri fimm ára búsetu í Brussel er mér alltof vel kunnugt um hvað gerist þegar enginn er til að standa varðstöðu um eitt helsta leiðarljós Hjálmars nái hann kjöri að “almannahagsmunir ráði ferð í borginni en ekki sérhagsmunir fjárfesta og verktaka.”
Hjálmar hefur sjálfur bent á þörfina á endurnýjun í pólitík. Ég tel að framboð Hjálmars sé slíkt kostaboð fyrir Reykvíkinga að sjálfur gekk ég í Samfylkinguna í þeim tilgangi að leggja mitt litla lóð á hans vogarskál.
Ekki er verra að geta stutt Oddnýju Sturludóttur þótt hún sé enginn nýliði enda hefur hún þegar þegar sýnt og sannað að hún hefur góðan skilning á að borgarmálefnin snúast um annað og meira en hvort ruslafatan sé hvít eða svört.
Hjálmar og Oddný eru ólík en bæði með hjartað á réttum stað: vinstra megin. Ég hef góðan smekk og vel aðeins það besta og hvet því Samfylkingarmenn til að veita þeim brautargengi í prófkjörinu.
Hvernig væri að láta íhaldið fara í rusl og stilla fram sterkasta liði Samfylkingarinnar í næstu kosningum?
Höfundur á lögheimili í Reykjavík
þriðjudagur, 19. janúar 2010
Er málið að raða ruslafötum?
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)